27.7.2007 | 09:36
Einföld lausn við þessu
Menn geta haldið áfram að býsnast yfir þessum ofsaakstri og því að þetta sé hættulegt. Lausnin er ekki sú að færa viðkomandi á lögreglustöðina, svipta ökuréttindum til bráðabirgða og að senda þeim svo sektina í pósti.
Lausnin er að viðkomandi fari samstundis beint í steininn og fái að minnsta kosti 30 daga dóm, fái auk þess sekt og sé gert að taka bílprófið aftur. Ef menn vita að þetta séu viðurlögin þá held ég að bensínfóturinn léttist töluvert.
Einhverjir kunna að halda því fram að ef þetta séu viðurlögin þá muni menn reyna að stinga lögguna af. Það kann vel að vera rétt en í flestum tilfellum nær löggan þeim eða þá að þeir drepa sig eða stórslasa við að reyna að sleppa. Við að reyna að stinga lögguna af bætast við 30 dagar í steininum.
Sömu viðurlög ættu að gilda um ölvunarakstur. Ég held að fólk muni hugsa sig vandlega um ef viðurlögin væru þetta harkaleg.
Tekinn á 179 km hraða á Reykjanesbrautinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2007 | 12:30
Erum við að missa okkur í ruglinu?
Þetta er nú meira ruglið að vera að hugsa um og eyða peningum í að skoða möguleikann jarðgöngum til Vestmannaeyja. Hriplekt berg, loftræstivandamál o.fl. o.fl fyrir utan það að talað er um að kostnaðurinn sé kr. 80,000,000,000 (80 milljarðar) sem er kostnaður uppá kr. 267,000 á hvern Íslending eða kr. 16,000,000 (16 milljónir) á hvern íbúa (5000 manns) í Vestmannaeyjum. Ef allar byggðir á Íslandi fengju sömu fyrirgreiðslu þá ættu t.d. íbúar í Hrísey (524 manns) rétt á kr. 8,384,000,000 (tæpir 8,4 milljarðar) til samgöngumála.
Vestmannaeyjar eru og verða eyjar og því að búa á eyju fylgja kostir og gallar. Einn af "göllunum" við að búa á eyju er að viðkomandi þarf að skipuleggja ferðir sínar til og frá eyjunni og þar af leiðandi að taka mið af því að skipa- og flugferðir séu á ákveðnum tímum. Það er ótrúleg þessi rörsýn á að jarðgöng til Eyja séu það sem koma skal og allt annað séu bráðabirgðaráðstafanir.
Fólki er heimilt að hafa aðrar skoðanir á þessu mín vegna.
Bakkafjara kann að vera millileikur" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2007 | 10:00
Komið til að vera eða?
Áður en framkvæmdir hófust við Kárahnúka þá spáði ég því að áður en framkvæmdum væri lokið og Hálslón væri fullt þá brysti á eldgos í norðanverðum Vatnajökli eða í nágrenni Kárahnúka. Jarðskjálftar, hraunrennsli, öskufall og að lokum sópast allt draslið út á hafsauga.
Fréttir af aukinni skjálftavirkni og kvikuhreyfingum á svæðinu og í Kverkfjöllum auka spennuna og kannski fer svo að ég hafi spáð rétt. Það sem ekki hefur gerst áður getur alltaf gerst aftur.
Hálslón orðið 40 ferkílómetrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2007 | 09:57
Sandsílið lifi!
Oft hef ég flett í gegnum dagblöðin og reynt að finna góðar fréttir en þær eru fáar.
Mest er um slys, stríð, bruna, barsmíðar, nauðganir (og aðrar fréttir af lögbrjótum og örlögum þeirra), flóð, hamfarir aðrar, sjúkdóma og önnur skakkaföll sem við verðum fyrir. Í einhverjum tilfellum væri hægt að segja að fyrir einhvern væru þetta góðar fréttir. Svona fréttir selja blöð og hreyfa við þjóðfélaginu. Fólk getur rætt þessi mál og haft skoðanir.
Ef einhver vinnur stórt í happdrætti einhversstaðar í heiminum þá nær það í blöðin. Ef einhver nennir að labba kringum landið og safna pening fyrir eitthvað málefni þá nær þetta líka í blöðin ef viðkomandi er hæfilega fatlaður. Harry Potter er frétt (góð eða slæm). Nú kraumar Faxaflóinn af sandsíli og líklega er þetta góð frétt (eða slæm ef sandsílið étur eitthvert annað kvikyndi út á gaddinn) og mun stórauka lestur og sölu dagblaða.
Yfirlýsing: Ég vil fá fleiri góðar fréttir í blöðin.
Yfirborðið í Faxaflóa kraumar af sandsíli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 13:06
Fyrsta bloggfærsla
Þetta mun vera fyrsta bloggfærslan mín og mun því marka þáttaskil í íslensku þjóðlífi. Fylgist með frá upphafi.
Bloggar | Breytt 16.7.2007 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)